Wednesday, August 21, 2013

Spennandi tímar framundan!

Ég á rosalega erfitt með að trúa því að haustið sé að koma og skólinn sé að byrja á morgun. Sumarfríið er búið að líða alltof hratt og eins og oft áður þá var ég ekkert alltof dugleg við að gera eitthvað í fríinu. Náði samt nokkrum sund(tan)ferðum, nokkrum útiæfingum og fór, eins og alltaf, til eyja. Er alveg bara ágætlega sátt með þetta. En þó svo að ég sé alveg búin að eiga ágætt sumar hefði ég alveg verið til í 2-3 vikur í viðbót. En ég fæ víst litlu ráðið um það.


Eini stóri kosturinn við að skólinn sé að byrja er elsku besta uppáhalds rútínan! Ó guð hvað ég hef saknað hennar. Vakna kl. 6, borða uppáhalds hafragrautinn minn og hoppa á æfingu fyrir skóla. Ég skil ekki  af hverju fólki finnst morgunæfingar svona mikið mál, þetta er erfitt fyrst en svo vennst þetta. Eftir skóla/vinnu er maður svo bara rólegur og getur slakað á og dundað sér við að læra. Ekkert stress um að þurfa á ná æfingu fyrir kvöldmat (þeir sem æfa í laugum skilja geðveikina þar). Fólk spyr mig hvernig ég nenni þessu, en hvað get ég sagt... ég elska þetta og ef mér þætti ekki gaman að mæta á æfingar á morgnanna, þá myndi ég ekki gera það.


Ég skrifaði um eftirkeppnisþunglyndi í síðustu færslu, og ég hef fengið alveg all nokkur komment á hana, bæði á facebook og í persónu. Mjög ánægð með það hversu margir lásu hana og ekki var það að skemma fyrir að Konni þjálfari birti þetta á síðu Iceland Fitness á facebook. Mér finnst mikilvægt að keppendur og stelpur sem stefna á sviðið þekki þetta og kynni sér tímabilið eftir mót, því allir geta lent í þessu. Bæði byrjendur og lengra komnir. En þrátt fyrir þetta vesen mitt þá missti ég ekki allt álit á sportinu og stefni nú á annað mót. Stefnan er þó ekki tekin á nóvember enda held ég að hausinn og líkaminn þurfi aðeins meiri hvíld heldur en bara sumarfríið, svo ég set stefnuna á Íslandsmótið. 

Ég fór í fyrstu mælinguna eftir mót í síðustu viku og kom hún bara rosalega vel út og ég gæti ekki verið ánægðari með niðurstöðurnar og spenntari fyrir tímabilinu. Ég byrja á nýju matar og æfingarprógrammi á föstudaginn frá Konna og ég er bókstaflega að fara yfirum af tilhlökkun. Finnst ótrúlegt að geta verið svona spennt fyrir æfingarprógrammi, en það eru bara ekki til orð yfir það hversu mikið ég elska það að mæta á æfingar og gera mitt besta til að bæta mig. Ég er rosalega ánægð með þann árangur sem ég hef náð og hef því fulla trú á að ég geti náð enþá betri árangri, sem ég mun gera með hjálp þjálfara og stuðningi frá fjölskyldu og vinum. Ég ætla mér að reyna að vera dugleg að taka myndir og skrifa um það sem er að gerast hjá mér í undirbúningnum svo hægt verður að fylgjast með hér á síðunni.


En ég get víst ekki haft þetta lengra í bili. Þarf að drífa mig að fara að sofa, því að er æfing og skóli eftir ekki svo marga klukkutíma.

- Ágústa Íris

No comments:

Post a Comment