Þá er þetta blessaða ár loksins búið. Árið 2014 var ekki beint verið mitt besta ár hingað til, enda rosalega margt búið að gerast og breytast hjá mér á síðustu 12 mánuðum. En vegna þess hversu léleg ég var að blogga á árinu þá ákvað ég að taka smá samantekt yfir árið. Ég læt nokkrar myndir fylgja með, en þær eru flestar teknar af Instagramminu mínu.
Í janúar þá lét ég loksins verða af því að drífa mig í förðunarfræði námið sem ég var búin að láta mig dreyma um síðan 2008. Ég byrjaði í Mood Make Up School ásamt nokkrum yndislegum stelpum. Skólinn stóð í 8 vikur og skemmti ég mér rosalega vel. Ég útskrifaðist svo í byrjun mars með Diploma í förðunarfræði.
Við stelpurnar héldum svo uppá útskriftina saman og fórum út að borða og tókum djamm saman.
Útskrift úr Mood MakeUp School.
Eftir förðunarfræðina tók ég örfá verkefni en þar má m.a. telja myndatökur fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna sem voru á vegum SagaFilm. Skemmtilegt og lærdómsríkt verkefni sem kenndi mér smá hvernig er að vera á setti.
Í ágúst tók ég svo að mér annað verkefni. Verkefnið var tónlistarmyndband við lagið Dancin’ með Aaron Smith (Hægt er að horfa á myndbandið hér). Myndbandið var tekið upp í Smáralindinni og fékk ég það hlutverk að vera aðstoðarmaður MakeUp Artistans. En það var mín yndislega vinkona, Gunnhildur Birna, sem sá um förðunina við þetta myndband. Þessi upplifun var æðislegt og klárlega eitt af því sem stendur uppúr á árinu. Og er ég endalaust þakklát þessari elsku fyrir að gefa mér þetta tækifæri.
Gunnhildur að farða.
Við á setti í Hagkaup.
Í júní ákvað ég loksins að byrja að æfa fyrir 10 km í Reykjavíkur Maraþoninu sem ég er búin að tala um að gera í mörg ár - en aldrei látið verða af. Ég tók þátt í þrem mismunandi hlaupum og fór nokkrum sinnum sjálf út að hlaupa. Ég viðurkenni að ég hefði alveg mátt vera duglegri en einhverstaðar verður maður jú að byrja. Eftir að hafa farið mína fyrstu 10 km í júlí á mun betri tíma en ég bjóst við þá setti ég mér markmið fyrir Reykjavíkur Maraþonið, sem ég svo náði. Og var það mikill sigur fyrir mig að geta klárað þetta á ágætum tíma.
Ég gjörsamlega uppgefinn eftir mína fyrstu 10 km sem ég tók í Ármannshlaupinu.
Ég ánægð með árangurinn í hlaupinu - og medalíuna mína.
Ekki má gleyma elsku bestu þjóðhátíð - en ég hef ekki látið mig vanta þar síðustu 8 árin.
Ég og besti í brekkunni.
Karen og Ég í brekkunni á góðri stundu.
Strax eftir þjóðhátíð byrjaði ég svo í “nýrri” vinnu. Eftir 3 ár í Útilíf Í Smáralindinni ákvað ég að flytja mig um vinnustað og byrjaði í Útilíf í Kringlunni.
Í lok ágúst fór ég ásamt 17. þúsund öðrum og hlustaði á Justin Timberlake "rífa þakið" af Kórnum. Þvílíkur performer sem maðurinn er. Ég hef aldrei skemmt mér jafn vel á tónleikum og eftir þessa tónleika er hann án efa einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum.
Skemmti mér svo vel að ég fór heim strax eftir tónleikana til að horfa á þá aftur.
Um mánaðarmótin ágúst september byrjaði ég í fjarnámi við Háskólann í Reykjavík á frumgreinadeild og líkar bara mjög vel. Hlakka rosalega til að takast á við næstu önn, sem verður öðruvísi vegna þess að stefnan er tekin á staðarnám.
Desember fór að mestu leiti í vinnu, æfingar og prófalestur. Undirbúningur fyrir Íslandsmót 2015/Bikarmót 2015 hófst í lok nóvember og munu næstu mánuðir eflaust einkennast af skóla, æfingum, vinnu og enn fleiri æfingum.
En annars held ég að ég láti þetta duga í bili enda er ég búin að stökkva hratt yfir helstu atburði ársins. Eitt af markmiðunum fyrir 2015 er að blása smá lífi í þessa litlu sætu bloggsíðu og segja ykkur frá mínum vangaveltum um daginn og veginn, sama hvort það sé um tísku, fitness eða förðun.
Sjáum til hvernig mér tekst til með þetta markmið!
Að lokum vil ég óska öllum gleðilegs nýs árs og þakka á sama tíma fyrir liðnar stundir á árinu.
Ágústa Íris